Samskipti
Góð samskipti eru grunnurinn að öllum samböndum, hvort sem þau eru persónuleg, félagsleg, rómantísk eða innan fjölskyldna. Ungmenni fá þjálfun í alls kyns samskiptum og geta leitað til fyrirmynda víða í daglegu lífi. Samskipti í nánu eða kynferðislegu sambandi eru hins vegar ekki áberandi í umræðunni og liggur því ekki í augum uppi hvernig þeim skuli háttað. Fræðslan stuðlar að heilbrigðum ákvörðunum, ánægjulegu kynlífi, virðingu fyrir mörkum og að samþykki sé tryggt meðal ungmenna.
Hæfniviðmið
- Nemandi á að geta auðkennt mikilvægi þess að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og tjáð eigin þarfir og mörk.
- Nemandi á að geta rökstutt hvers vegna góð samskipti geta styrkt og betrumbætt kynferðisleg og náin sambönd.
- Nemandi á að geta miðlað kynferðislegum þörfum sínum og mörkum.
Kennsluleiðbeiningar
Undir fræðsluefni flokksins má finna skemmtileg myndbönd með reynslusögum af samskipti í kynlífi, höfnun, virðingu fyrir öðrum, hópþrýstingi og svo framvegis. Myndböndin eru frábærar kveikjur og gefa nemendum innsýn inn í raunveruleg samskipti og að þau séu eðlilega ekki alltaf fullkomin.
Einnig er hlekkur á Instagram-síðuna Fávitar sem er átak gegn stafrænu kynferðisofbeldi og birtir m.a. skjáskot af raunverulegum skilaboðum sem fólk hefur fengið. Tilvalið er að skoða síðuna með nemendum og ræða viðeigandi hegðun á netinu. How to set boundaries fjallar meðal annars um að setja sér stafræn mörk.
Greinarnar frá Love is respect, Ástráði og Heilsuveru einblína á samskipti í kynlífi og fyrsta skiptið. Rannsóknir sýna að hefðbundin kynhlutverk og staðalímyndir séu áberandi í kynlífsmenningu ungs fólks. Sömuleiðis litast hún af reglum sem valda því að erfitt geti orðið að tjá samþykki á skýran máta en ungt fólk segist tjá sig frekar líkamlega í rúminu heldur en með orðum. Hætta skapast auðveldlega ef ungmennum finnst þau ekki geta tjáð sig frjálslega og er markmið fræðslunnar því að valdefla nemendur til að finnast þau hafa meira rými til að tjá sig frjálslega í kynlífi og nánum samböndum.
Fræðsluefni
Verkefni
Er þetta í lagi er einfalt og skemmtilegt próf sem fær nemendur til að velta því fyrir sér hvers konar hegðun og samskipti eru í lagi og ekki í lagi. Í prófinu birtast 30 dæmi um pör sem eiga í samskiptavanda en nemendur eiga að leggja mat á ólíku aðstæðurnar. Viðfangsefni prófsins eru margvísleg, þar á meðal höfnun, orðspor, hótanir og réttur á einkalífi. Prófið býður þess vegna upp á mörg tækifæri til umræðu. Prófið veitir þjálfun í að þekkja mörk og hvort gagnkvæm virðing ríki í samskiptunum. Það veitir nemendum upplýsingar um hvers konar hegðun eigi ekki að líða í samböndum og hvernig sé best að bregðast við. Prófið er byggt á CoolNotCool verkefninu frá That's Not Cool og er allt myndefni fengið þaðan.