Sambönd

Hver er munurinn á heilbrigðu og óheilbrigðu sambandi? Það getur reynst mörgum erfitt að gera greinarmun á óheilbrigðri og heilbrigðri hegðun, sérstaklega þegar kemur að eigin nánum samböndum. Þess vegna er mikilvægt að fræða ungmenni um einkenni hvoru tveggja og þjálfa hæfni þeirra til að horfa á sambönd með gagnrýnum augum.

Hæfniviðmið

  • Nemandi á að geta rökrætt einkenni heilbrigðra og óheilbrigðra sambanda og samskipta.
  • Nemandi á að geta gert sér grein fyrir neikvæðum áhrifum kynjastaðalímynda, valdaójafnvægis og ójafnréttis á sambönd
  • Nemandi á að geta borið saman heilbrigð og óheilbrigð náin sambönd.

Kennsluleiðbeiningar

Undir fræðsluefni flokksins má finna þrjú stutt myndbönd frá AMAZE um heilbrigð og óheilbrigð sambönd en einnig netsamskipti í samböndum. Hvert myndband er í kringum 2 mínútur og er því tilvalin kveikja að frekari vinnu með viðfangsefnið.

Sjúk ást er forvarnarátak á vegum Stígamóta um ofbeldi í nánum samböndum ungmenna. Á vefsíðu þeirra má finna auðlesnar upplýsingar og skemmtileg myndbönd, m.a. um muninn á heilbrigðum og óheilbrigðum samböndum, og er tilvalið námsefni fyrir nemendur. Undir heilbrigðum samböndum er fjallað um mörk, traust, virðingu, samskipti og hinsegin sambönd. Sömuleiðis er hægt að kafa dýpra í einkenni óheilbrigðra sambanda, stafræn samskipti, afbrýðissemi, meðvirkni og svo framvegis. Umfjöllunin býður upp á kjörið tækifæri til að kynna nemendum fyrir nafnlausa netspjalli vefsíðunnar, Sjúkt spjall. Þar býðst ungmennum að spjalla við ráðgjafa um áhyggjur samböndum sínum eða samskiptum og er ótrúlega gott að nemendur viti af.

Fræðsluefni

Verkefni

Verkefnið Sambandsrófið er kennsluhugmynd sem tilheyrir flokknum sambönd. Verkefnið er sett upp sem glærukynning sem kennari getur nýtt til að kynna starfsemi Sjúkrar ástar fyrir nemendum. Sjúk ást býður nefnilega upp á próf sem gefa vísbendingu um heilbrigði sambanda. Þau skipta samböndum í heilbrigð, óheilbrigð og ofbeldisfull og birta einkenni hverrar tegundar á sambandsrófi. Eftir að afla sér upplýsinga eiga nemendur að bæta við sambandsrófið og gera það ennþá ítarlegra með fleiri dæmum. Næst eru nemendur fengnir til að velja sér skáldaða persónu og skoða samband hennar betur. Nemendur þurfa nefnilega að setja sig í þeirra spor og svara sambandsprófi fyrir þeirra hönd. Að lokum skrifa nemendur samantekt á verkefnavinnunni og greina niðurstöður. Verkefnið býður upp á alls kyns aðlögun að þörfum nemenda. Kennari ræður viðmiðunarlengd samantekta og hversu ítarlegar þær eigi að vera. Einhverjir nemendur geta tekið prófin fyrir fleiri en eina persónu, nemendur geta haldið umræður um niðurstöður og svo mætti lengi áfram telja fleiri möguleika.

verkefna mynd

Sambandsrófið

Verkefni sem þjálfar nemendur í að greina á milli heilbrigðs sambands og óheilbrigðs.