Ofbeldi
Eitt helsta markmið kynfræðslu er að draga úr ofbeldi, einkum ofbeldi í nánum samböndum, kynferðisofbeldi og áreitni, valdaójafnvægi og kynjaójafnrétti. Því er mikilvægt að fá fræðslu um ólíkar tegundir ofbeldis og hvers konar hegðun telst vera ofbeldi. Slíkt getur vafist fyrir einhverjum sérstaklega í ljósi þeirra misvísandi skilaboða sem klámvæðing og nauðgunarmenning gefa til kynna.
Hæfniviðmið
- Nemandi á að geta sýnt styrk til að bera ábyrgð á eigin hegðun sem stuðlar að jákvæðum og heilbrigðum samskiptum við aðra og tekið virka afstöðu gegn ofbeldi.
- Nemandi á að vera með á hreinu að kynferðisofbeldi, kynferðisleg áreitni, ofbeldi í nánum samböndum og einelti eru brot gegn mannréttindum.
- Nemandi á að geta skilgreint hvað felst í því að eiga rétt á einkalífi og líkamsvirðingu sem og að ráða yfir því hvað þau vilja eða vilja ekki gera.
Kennsluleiðbeiningar
Fræðsluefnið sem tekið hefur verið hér saman einblínir á ofbeldi í nánum samböndum og kynferðislegu ofbeldi. Það er þó vandasamt að fjalla um ákveðnar tegundir ofbeldis án þess að fjalla um allar þær helstu. Í allri umfjöllun um hvers konar ofbeldi eða áreitni er mikilvægt að nálgast efnið af nærgætni og tillitssemi. Þá þarf kennari að tryggja að nemendur upplifi sig örugga og að traust ríki á milli nemenda sem kennara. Hér fyrir neðan má finna lista yfir helstu úrræði sem standa til boða fyrir þolendur ofbeldis og er grundvallaratriði að kynna hann fyrir nemendum.
Fræðslumyndböndin AMAZE gefa góð ráð í tengslum við kynferðisofbeldi og skynsamlega hegðun á netinu. Á vef Áttavitans geta nemendur lesið sig til um gaslýsingu og stafrænt kynferðisofbeldi og á Sjúk ást eru nytsamlegar greinar um alls kyns þætti ofbeldis og sambanda.
Vefur Neyðarlínunnar er einnig með gríðarlega nytsamlega fræðslu um ólíkar tegundir ofbeldis. Undir Ofbeldi í nánum samböndum er fjallað um vanrækslu, eltihrelli, og mismunandi birtingarmyndir ofbeldis. Undir Kynferðislegt ofbeldi og áreitni er greint frá tælingu, byrlun, áreitni og nauðgun. Fræðsla um einkenni ofbeldis og hvert sé hægt að leita hjálpar getur skipt öllu máli fyrir heilsu nemenda og vellíðan.
Fræðsluefni
Verkefni
Í verkefninu Þekkir þú ofbeldi? er unnið með dæmisögur Neyðarlínunnar um fólk í alls kyns erfiðum aðstæðum. Hlekkinn að dæmisögunum má nálgast í fræðsluefninu hér fyrir neðan og ber heitið 112 - Þekkir þú ofbeldi?. Hugmynd að útfærslu er að skipta nemendum í litla hópa og úthluta hverjum hópi dæmisögu. Dæmisögurnar fjalla um mismunandi tegundir ofbeldis og henta allar vel til kennslu. Þær sögur sem fjalla um ofbeldi í samböndum eða kynferðisofbeldi og eiga því best við í kynfræðslu eru sögurnar um; Bylgju, Ingvar, Linh, Áslaugu, Friðrik, Huldu, Andra, Láru, Hauk, Kristjönu, Katrínu og Fatimu. Í hópunum eiga nemendur að lesa söguna, velta fyrir sér spurningunum á glærunni og svara eftir bestu getu. Þá getur kennari mælt með því að nota vef Neyðarlínunnar til að kynna sér flokkun ofbeldis. Markmið verkefnisins er að nemendur fái þjálfun í að taka eftir og skilgreina ofbeldi í ólíkum birtingarmyndum.