Kynlíf

Alls kyns mýtur og ranghugmyndir um kynferðislega hegðun má finna í öllum samfélögum og menningarheimum en það er mikilvægt að þekkja staðreyndirnar. Rannsóknir sýna að ungmenni leita í sífellt meiri mæli til internetsins til að afla sér upplýsinga um kynlíf, kynferðislega hegðun og sambönd. Efni á netinu gefur oft óraunsæja mynd af kynlífi, samskiptum og líkömum og því mikilvægt að ungmenni fái heilbrigðari fræðslu um kynlíf og öllu sem því fylgir.

Hæfniviðmið

  • Nemandi á að geta vegið og metið áhrif staðalímynda á væntingar til kynlífs.
  • Nemandi á að þekkja þá staðreynd að í öllum samfélögum sé hægt að finna mýtur um kynferðislega hegðun og því mikilvægt að þekkja staðreyndir.
  • Nemandi á að þekkja að kynlíf og kynferðisleg hegðun eigi að vera ánægjuleg og heilsa og vellíðan skuli ávallt höfð í fyrirrúmi.
  • Nemandi á að þekkja mikilvægi þess að taka upplýstar ákvarðanir í kynlífi.

Kennsluleiðbeiningar

Í fræðsluefninu hér fyrir neðan má finna margvíslega gagnlega hlekki sem kynlíf, sjálfsfróun, hinseginleika og fyrstu skrefin í kynlífi með öðrum. Á Fumble og Áttavitanum má finna greinar um alls kyns mýtur sem leynast í samfélaginu sem sniðugt væri að ræða um við nemendur. Mýturnar snúast um sjálfsfróun, kynferðislegan „hreinleika“ og kynlíf fatlaðs fólks.

Stuttu myndböndin Alls kyns um kynferðismál, Sjálfsfróun & að þekkja eigin mörk og fræðslumyndböndin frá Viku6 eru fullkomin til að sýna í upphafi kennslustundar.

Myndböndin frá Villainesse eru frábær og varpa ljósi á raunverulegar upplifanir fólks af kynlífi og sjálfsfróun sem opna fyrir umræðu sem einhverjum finnst eflaust erfitt að hefja.

Einnig má finna gátlista fyrir ungt fólk sem veltir fyrir sér hvort það sé tilbúið að stunda kynlíf en sniðugt væri að benda nemendum á listann svo að þau viti af honum ef þau lenda í slíkum vangaveltum.

Í allri umræðu um kynlíf og kynferðislega hegðun er mikilvægt að allir nemendur séu teknir með í samtalið. Þá skiptir máli að ganga ekki út frá því að gagnkynhneigt kynlíf sé normið og einblína einungis á það. Kennarar þurfa að afla sér upplýsinga um hinsegin sambönd og hugtök og geta nýtt fræðsluvefinn Ö til A til þess og jafnvel rýnt í grein Ástráðs um LGBTQIA með nemendum.

Fræðsluefni

Verkefni

Verkefnið fylgir áhorfi á bresku þáttaröðina Sex Education. Þættirnir eru fyrst og fremst skemmtilegir en sömuleiðis afskaplega fræðandi. Í þeim er komið inn á meirihluta viðfangsefna kynfræðslunnar og því tilvalið að nýta þá í kynfræðslukennslu. Hugmynd verkefnisins er að nemendahópur fái að horfa á einn þátt úr þáttaröðinni, fyrsti þáttur hentar vel og er um 50 mínútur. Ef ekki gefst tími til að horfa á heilan þátt er styttri útgáfa verkefnisins að horfa á myndbandið The best sex advice in Sex Education sem er rúmlega 4 mínútur. Leiðbeiningar verkefnavinnu nemenda má finna á glærunum en hægt er að sniða hana eftir hentugleika. T.d. er hægt að nota einn-fleiri-allir kennsluaðferðina og gera miðana þá í hópum, gera hugtakamiða á netinu með forriti eins og Padlet og svo framvegis.

verkefna mynd

Sex Education

Hugtakaverkefni út frá þáttaröðinni Sex Education.