Klám og klámvæðing
Klám er ekki kynfræðsla. Eðlilegt er að unglingar leiti til kláms, bæði sér til örvunar og í leit að upplýsingum en merki klámvæðingarinnar má einnig finna allt í kringum okkur. Klám gefur ungu fólki hins vegar óraunsæja mynd af kynlífi, samskiptum, líkömum og mörkunum milli kynlífs og ofbeldis. Mikilvægt er að ungmenni fái góða kynfræðslu sem spornar gegn neikvæðum og skaðlegum skilaboðum úr klámi.
Hæfniviðmið
- Nemandi á að geta bent á andstæður í klámi og raunveruleikanum.
- Nemandi á að geta skýrt hvers vegna kynferðislega opinskátt efni, t.d. klám er eins útbreitt og það er en geti verið skaðlegt.
- Nemandi á að þekkja lög, regur og úrræði til dæmis varðandi hefndarklám.
- Nemandi á að þekkja hvernig klám og efni á samfélagsmiðlum geti ýtt undir skaðlegar staðalímyndir um kynin, normalíserað ofbeldisfulla hegðun og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd.
Kennsluleiðbeiningar
Helsta viðfangsefni fræðsluefnisins hér fyrir neðan er klám og klámvæðing en sömuleiðis andstæður í klámi og raunverulegu kynlífi.
Myndböndin frá Amaze og Porn vs Real Sex: Explained with Food eru frábærar kveikjur að umræðu um ranghugmyndir sem fólk fær úr klámi.
Klám, klámvæðing og kynlífsmenning er afskaplega fróðlegt og greinir frá raunverulegum niðurstöðum rannsókna á skaðlegum áhrifum klámáhorfs. Á vef Stígamóta má sömuleiðis finna alls kyns upplýsingar um neikvæðar hliðar kláms og hvers vegna það sé varasamt að neyta þess.
Ástráður og Sjúk ást birta að venju ítarlegar og gagnlegar upplýsingar um klám og kynheilbrigði sem nálgast efnið á jafningjagrundvelli.
Áttavitinn bendir á mýtur sem finna má í klámi og myndbandið Klám vs. raunveruleiki segir frá upplifun fólks af hugmyndum sem koma úr klámheiminum.
Fræðsluefni
Verkefni
Klám eða raunveruleiki er próf sem veitir upplýsingar um muninn á klámi og kynlífi og er ætlað til að vinna gegn ranghugmyndum sem nemendur gætu öðlast úr klámi og áhrifum klámvæðingarinnar. Til að byrja með eiga nemendur að svara spurningum sem athuga þekkingu þeirra á klámiðnaðinum og skaðleika klámvæðingarinnar. Síðan birtast þeim 25 fullyrðingar sem einkenna annað hvort klám eða raunverulegt kynlíf og nemendur eiga að velja hvað þau halda sé rétt. Eftir hverja fullyrðingu birtist rétt svar ásamt frekari upplýsingum. Verkefnið veitir nemendum þjálfun í að greina á milli kláms og raunveruleikans og fræðir þá um leið um alls kyns mýtur og ranghugmyndir sem koma þaðan. Prófið á aðeins að vera fræðandi og á ekki að gilda til einkunnar. Hins vegar er tilvalið að stýra umræðu um það sem nemendur lærðu og kom þeim á óvart eftir að þau taka prófið.